|
Ritvilluvörnin Púki í 25 ár !
|
Púkinn hefur fækkað ritvillum eftir fremsta megni bæði hjá einstaklingum, stofnunum og fyrirtækjum í 25 ár!
Í stuttu máli þá er sagan svona: Árið 1987 gekk ungur tölvunarfræðingur að nafni Friðrik Skúlason með stafla af diskettum í tækniverslanir í höfuðborginni til endursölu. Á diskettunum var fyrsta útgáfa af ritvilluvörninni Púki, sem hefur streðað við að leiðrétta innsláttarvillur Íslendinga allar götur síðan.
Tilurð Púkans má rekja til lokaverkefnis Friðriks í tölvunarfræði við Háskóla Íslands, en Púkinn gat á þessum tíma borið kennsl á beygingarmynd orða. Út frá því kom upp sú hugmynd að hægt væri að smíða forrit sem bæri kennsl á orð sem ekki væru rétt stafsett, byggt á því að ef forritið gæti ekki borið kennsl á beygingarmynd væri það vitlaust stafsett eða erlent. Þannig væri ritvillupúkinn taminn og nýttur til leiðréttingar. Forritið fékk því nafnið Púki.
Nafn forritsins, sem er löngu orðið vel þekkt, hefur þó í stöku tilfellum staðið útbreiðslu forritsins fyrir þrifum. Að minnsta kosti einn áhugasamur en sanntrúaður viðskiptavinur gat ekki hugsað sér að kaupa Púkann sökum nafngiftarinnar. Það þótti hinsvegar vega nokkuð upp á móti, þegar viðskiptavinur að nafni Jesús keypti eitt sinn forritið!
Fyrsta útgáfa Púkans var innan við 100 KB að stærð og samhæfð fyrir tölvur með „a.m.k. 512K minni og Dos 2.0“. Forritið er raunar enn smátt í sniðum og létt í keyrslu, en allnokkurt vatn hefur runnið til sjávar þessi 25 ár og forritið hefur nú í allnokkur ár einnig innihaldið beygingarforrit, samheitaorðabók og aðstoðar notendur við að skipta orðum milli lína. |

 |
|
|